10.9.2020 | 09:17
Réttur barna til lífs og þroska
Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinaskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.
Í þessari grein verður fjallað um rétt barna til lífs og þroska.
Rétturinn tíl lífs og þroska á að tryggja börnum og ungu fólki slík skilyði að þeim líði vel, að þörfum þeirra sé mætt og þau geti hafið lífið á þann hátt að á fullorðinsárunum geti þau staðið á eigin fótum, haft áhrif á samfélagið og látið gott af sér leiða. 6. grein Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna snýr að fyrrnefndum rétti en í henni segir:
- Aðildarríki viðurkenna að sérhvert barn hefur meðfæddan rétt til lífs.
- Aðildarríki skulu eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast.
Réttur til lífs og þroska
Það er ekki að ástæðulausu að rétturinn til lífs er samtvinnaður við réttinn til þess að þroskast. Réttindin í Barnasáttmálanum byggjast á þörfum barna. Því má segja að börn eigi rétt á því sem þau þurfa til þess að lifa og þroskast og þarfir þeirra þarf að skilgreina út frá heildrænu sjónarhorni. Líffræðilegum þörfum barna þarf vissulega að mæta því án næringar, hvíldar og annara líkamlegra þarfa fá börn ekki tækifæri til þess að þroskast. Því miður er það enn þann dag í dag raun margra barna. En það er ekki nóg að horfa einungis til líffræðilegra þarfa. Það á ekki að þurfa að taka það fram en líf barna sem og fullorðinna má, og á ekki, að skilgreina einungis út frá líffræðilegu sjónarhorni. Þarfir barna eru ekki síður félagslegar, andlegar og menningarlegar. Þau réttindi barna sem eru tilgreind í Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eiga að leiðbeina valdhöfum hvernig þau tryggja öllum börnum tækifæri til þess að lifa og þroskast. Samband réttinda og þarfa er mjög náið og í stuttu máli má segja að börn eigi rétt á því að þörfum þeirra sé mætt og það er alltaf á ábyrgð fullorðna fólksins að vita hverjar þarfir (allra) barna eru og mæta þeim. Börn eru alltaf viðkvæmasti hópur samfélagsins og í senn fjölbreyttasti hópur samfélagsins og því þarfir þeirra töluvert fjölbreyttar.
Réttindi barna skilin og uppfyllt
Barnasáttmálinn er viðurkenndur af öllum ríkjum Sameinuðu Þjóðanna að Bandaríkjunum utanskildum. Sem slíkur nær hann ekki fullkomlega yfir aðstæður allra barna. Auk þess er gott að líta til þeirra greina sem snúa sérstaklega að börnum í jaðarstöðu. Mannréttindi eru fyrir alla, alltaf. En mannréttindi eru sérstaklega mikilvæg fyrir þá jaðarhópa sem lifa við stöðuga hættu á mismunun og önnur réttindabrot. Til þess að heimfæra hann á aðstæður íslenskra barna er mikilvægt að hafa í huga 3. grein sáttmálans að ákvarðanir stjórnvalda eigi alltaf að vera börnum í hag. Það sem er barninu fyrir bestu er hins vegar fljótandi hugtak, stöðug áskorun með tilliti til þess hversu fjölbreyttar þarfir barna eru. Þess vegna er mikilvægt að skoða Barnasáttmálann sem heild og nýta grundvallarforsendurnar fjórar til þess að skilja betur innihald greinanna. Auk grundvallarforsendanna má skoða almenn ákvæði Barnaréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna fyrir ítarlegar útskýringar og túlkun á einstökum greinum sáttmálans.
Grundvallarforsendur Barnasáttmálans
- greinin er ein af fjórum grundvallarforsendum Barnasáttmálans. Hinar þrjár eru
- 2. grein Jafnræði Börnum má ekki mismuna.
- 3. grein Ákvarðanir stjórnvalda skulu ávallt byggðar á því sem er barninu fyrir bestu.
- 12. Grein Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.
Þó að öll réttindi Barnasáttmálans séu mikilvæg er almennt gengið út frá því að þessar fjórar greinar feli í sér svokallaðar grundvallarreglur, sem tengja saman ólík ákvæði hans. Grundvallarreglurnar fjórar ganga sem rauður þráður í gegnum allan sáttmálann. Þær veita öðrum greinum sáttmálans samhengi, rétt eins og hinar greinar sáttmálans veita grundvallarforsendunum samhengi. Eins og áður kom fram er ófullnægjandi að skilgreina líf fólks einungis út frá líffræðilegum forsendum. Að lifa er að þroskast. Til þess að þroskast þurfa börn að menntast (28. grein) og menntun þeirra þarf að stuðla að heildrænum þroska þeirra, á þeirra eigin forsendum ekki á forsendum foreldra þeirra, atvinnulífsins eða annarra. Þau þurfa að geta haft áhrif á samfélagið sem þau búa í og raddir þeirra þurfa að skipta máli og fullorðna fólkið þarf að hlusta (12. grein). Þau þurfa að leika sér og hvílast á milli (31. grein) af því börn læra og þroskast í gegnum leik. Þau þurfa vernd (m.a. 34. grein) og þau þurfa ekki síst að borin sé ábyrgð á því að þau fái réttindi sín uppfyllt (m.a. 4. og 5. grein).
Um bloggið
Barnaheill - Save the Children á Íslandi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 469
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.