22.6.2020 | 12:34
Réttur barna til vinnuverndar og verndar gegn arðráni
Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinarskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.
Í þessari grein verður fjallað um rétt barna til vinnuverndar.
Í 32. gr. sáttmálans er þessi réttur útlistaður. Þar segir í 1. mgr.:
Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að vera verndað fyrir arðráni og vinnu sem líklegt er að því stafi hætta af eða komið gæti niður á námi þess eða skaðað heilsu þess eða líkamlegan, sálrænan, andlegan, siðferðislegan eða félagslegan þroska.
Á Íslandi er löng hefð fyrir vinnu barna og ungmenna yfir sumarmánuðina og meðfram skóla, ólaunaðri og launaðri.[1] Almennt er það litið jákvæðum augum ef ungmenni fá reynslu af vinnu við hæfi og af vinnumarkaðnum, til að undirbúa þau fyrir fullorðinsárin. Í almennum athugasemdum nr. 20 sem Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 2016 er fjallað um það jafnvægi sem þarf að vera til staðar á milli réttar barna að fá að taka þátt í samfélaginu, m.a. með vinnu, og annarra réttinda þeirra, svo sem til menntunar, hvíldar og tómstunda. Það er almennt viðurkennt að vinna barna á unglingsárum geti verið gagnleg og jákvæð sem hluti af vaxandi rétti þeirra til þroska og þátttöku og verið drjúgur þáttur í lífsleikniþjálfun. Hins vegar er mikilvægt að börn séu ekki nýtt sem ódýrt vinnuafl og að þeim séu tryggð önnur réttindi sem þau njóta samkvæmt Barnasáttmálanum og öðrum lögum. Börn eiga rétt á að njóta virðingar og ber að tryggja þeim öryggi, hvíld og góðar vinnuaðstæður.
Þess þarf að gæta, eins og segir í 32. grein, að vinna barna komi ekki niður á námi þeirra. Um það hefur verið rætt að á Íslandi hafi álag á börn aukist töluvert á undanförnum árum, sérstaklega með tilkomu styttingar framhaldsskólans. Því ber að hafa sérstakar gætur á því að börn njóti réttar síns til að stunda nám, til að hvílast vel og fá góðan svefn svo þau fái sinnt þeim verkefnum sem tengjast námi þeirra.[2]
Barnaréttarnefndin hefur gagnrýnt íslenska ríkið fyrir það hversu ung börn hefja vinnu, oft 1314 ára og hversu lágur lágmarksvinnualdur sé, eða 15 ára að meginreglu. Ennfremur hefur nefndin haft áhyggjur af löngum vinnutíma barna og tíðum slysum og áreitni, og að oft sé lögð á börn meiri ábyrgð en hæfir aldri þeirra. Barnaréttarnefndin hefur hvatt íslenska ríkið til að a) hækka lágmarksvinnualdur til samræmis við lok skólaskyldu, b) til að hafa eftirlit með vinnu barna og gera ráðstafanir til þess að eftirlitsaðilar verði þess varir ef börn vinna of ung og hvetja þau til að ljúka framhaldsskóla og c) til að gera ráðstafanir til að tryggja börnum góð og viðeigandi vinnuskilyrði, öryggi, hæfilega langan vinnutíma og hæfilega ábyrgð eftir aldri.[3]
Brotthvarf úr framhaldsskólum hefur verið til skoðunar á undanförnum árum og er ljóst að Ísland hefur hæsta hlutfall þeirra sem hverfa frá námi úr framhaldsskóla án útskriftar, miðað við hin Norðurlöndin, eða 19,8%.[4] Þær skýringar sem nefndar hafa verið eru m.a. þær að börn og ungmenni þurfi að stunda vinnu til að fjármagna nám sitt, félagslíf og aðra þætti. Of mikil vinna og aukið fjárhagslegt frelsi sem fylgir, ásamt öðrum þáttum, getur haft þau áhrif að börn flosni upp úr námi.[5] Þess þarf því að gæta að börn séu hvött til að halda áfram námi og að finna jafnvægi á milli vinnu og náms. Jafnframt þarf að tryggja þá framfærslu sem þau þarfnast til að geta sinnt námi sínu á árangursríkan hátt.
Fjallað er um vinnu barna og ungmenna í 10. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 þar sem settar eru fram ákveðnar takmarkanir á vinnutíma barna og unglinga. Reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 útfærir nánar ákveðnar takmarkanir á vinnu barna og ungmenna þar sem m.a. er lagt fram bann við ráðningu ungmenna til vinnu þar sem líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin. Mikilvægt er að börn, ungmenni og atvinnurekendur séu meðvituð um þær takmarkanir sem gilda á vinnutíma og vinnu barna og ungmenna. Þá ber að nefna að Vinnueftirlitið fer með eftirlit með vinnu barna og ungmenna og tekur á móti ábendingum um brot gegn lögunum eða reglunum.
Lögum hefur þó ekki verið breytt eftir tilmælum Barnaréttarnefndarinnar. Mikilvægt er að huga vel að því að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um og taka fullt tillit til góðra ábendinga frá Barnaréttarnefndinni. Jafnframt er mikilvægt að samfélagið taki sig saman um að börn hafi aðgang að góðri frístundaþjónustu fram eftir unglingsaldri til að minnka áherslu á vinnu barna frá 13 ára aldri.
Barnasáttmálann þarf alltaf að lesa sem eina heild og hafa grundvallarreglur hans um bann við mismunun, um að allar ákvarðanir skuli taka með það sem barni er fyrir bestu, um rétt barna til besta mögulega lífs og þroska og rétt barna til þátttöku í huga þegar um málefni barna er fjallað.
Verum opin fyrir samtali um vinnuvernd barna. Þarf að breyta vinnumenningu barna á Íslandi? Hve mikið vinnuálag er hæfilegt? Hvernig finnum við jafnvægið? Hvað segja foreldrar um það? Hvað segja börnin sjálf um það?
[1] Vinnuskóli fyrir ungmenni. Könnun meðal sveitarfélaga. Útg. Umboðsmaður barna, 2019.
[2] Ungt fólk undir of miklu álagi. Viðtal við Bóas Valdórsson skólasálfræðing MH á Mbl.is, 24. sept. 2018.
[3] Lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar til Íslands, frá 6. október 2011. Sjá hér í íslenskri þýðingu að hluta.
[4] State of the Nordic region 2018. Skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar.
[5] Sama heimild.
Um bloggið
Barnaheill - Save the Children á Íslandi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 469
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.