Færsluflokkur: Bloggar

Hvað þýðir að barn eigi rétt til þátttöku?

Screenshot 2022-05-03 093703Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, gildir sem íslensk lög, en hann var lögfestur á Alþingi árið 2013, sem lög nr. 19/2013. Hann á við um öll börn á Íslandi, óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eignum, fötlun, ætterni eða öðrum aðstæðum þeirra eða foreldra þeirra eða lögráðamanns. 

Ein af grunnstoðum Barnasáttmálans er réttur barns til þátttöku. En hvað felst í þeim rétti?  

Í 12. grein Barnasáttmálans kemur eftirfarandi fram: Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. 

Í þessari grein má finna kjarnann í þátttökurétti barna. Eins og orð þessi bera með sér er réttur barns til að tjá skoðun sína mjög víðtækur en hann nær til allra mála sem barnið varðar. Þessi orð verður að skilja sem svo að barn, óháð aldri, eigi rétt til að láta skoðun sína í ljós, þegar það getur myndað eigin skoðun, hvenær sem því sjálfu eða öðrum manneskjum finnst málið það varða.  

Barn á því rétt á að taka þátt með því að tjá skoðun sína um öll mál sem það varðar, frá því það hefur færni til að láta skoðun sína í ljós. Gæta verður þess að börn láta skoðanir sínar í ljós frá unga aldri, fyrst aðeins með hljóðum, gráti eða öðrum aðferðum sem eru á færi þess að nota. Því er mikilvægt að vera vakandi fyrir því þegar barn tjáir skoðanir sínar og líðan og vera meðvitaður um að börn tjá sig með mismunandi máta eftir þroska og aldri.  

Til þess að réttur barna til þátttöku verði raungerður þarf börnum því að bjóðast með raunhæfum hætti, að segja skoðun sína um allt frá því sem varðar það persónulega, í nærumhverfi þess, fjölskyldu- og heimilislífi, um menntun sína og tómstundaiðkun og samskipti við vini og aðra, til þess að hafa tækifæri til að tjá skoðun sína um hin stærstu samfélagsmál, svo sem um stjórn landsins og lagasetningu.  

Samfélagið allt þarf að þekkja þennan rétt barna en vitanlega eru það foreldrar, einstaklingar sem vinna fyrir og með börnum og stjórnvöld sem þurfa að raungera réttindin með því að muna eftir að spyrja börn, hlusta á börn og nýta upplýsingarnar sem aflað er um skoðanir barna til að byggja ákvarðanir á. Rétt er að taka fram að um er að ræða rétt barna til að tjá skoðun sína en ekki skyldu. 

Skoðanir barna skipta miklu máli til að skapa heilbrigt og barnvænt samfélag.  

Barnaheill hvetja alla til að spyrja börn um hvað þeim finnst, hlusta vel á svörin og taka réttmætt tillit til skoðana, reynslu og hugmynda þeirra. 

Barnaheill vinna að bættum réttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi. 

 

 


Í upphafi árs 2022

CH1605940

Í upphafi hvers árs setja margir sér markmið og áramótaheit, sem mörgum tekst að fylgja en öðrum ekki. Þjóðir heims hafa oft sett sér markmið og heit um betri heim, aukinn jöfnuð, betri umgengni við móður Jörð og að uppræta fátækt, án mikils árangurs. Alþjóðsamfélagið hefur um áratuga skeið skrifað undir hvern sáttmálann á fætur öðrum um betri umgengni á Jörðinni og að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar en án árangurs. Afleiðingar loftslagsbreytinga eru nú orðnar að veruleika og börnin okkar þurfa að klást við afleiðingar gjörða okkar og þess að ráðamenn hafa í áratugi skellt skollaeyrum við tilmælum vísinda. Barnaheill – Save the Children hafa gert baráttuna gegn loftslagsbreytingum sem eitt af sínum forgangsverkefnum. Ástæðan er sú að loftslagsbreytingar ógna rétti barna til lífs, verndar og náms. Ekki síst verða börn í fátækustu ríkjum heims fyrir barðinu og afleiðingunum. Menntun þeirra mun skerðast, landsvæði verða óbyggileg vegna þurrka og börn verða stór hluti þeirra sem þurfa að leggja á flótta frá heimkynnum sínum næstu áratugina. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hvetja ráðamenn og landsmenn alla að standa vörð um velferð barna framtíðarinnar með því að vinna gegn loftslagsbreytingum og gera það að áramótaheiti fyrir árið 2022, heiti sem hægt er að standa við.

 

 


Hefurðu velt orðinu forsjá fyrir þér? 

bisdczgl1k8d4yvghiz96vÍ daglegu tali heyrist enn til fólks tala um að foreldrar hafi forræði yfir börnum sínum. Mörg ár eru síðan hætt var að nota orðið forræði í lögum. Hið rétta er að nota orðið forsjá. Orðið forræði lýsir gömlum gildum um að foreldrar ráði yfir börnum sínum en orðið forsjá leggur áherslu á eðli foreldrahlutverksins sem felur í sér skyldu til umönnunar og verndar. Mikilvægt er að þekkja rétt barns til þátttöku og áhrifa í ákvörðunum sem það varðar. Barn er einstaklingur með sín eigin mannréttindi og það er mikilvægt að foreldrar líti á hlutverk sitt þannig að þau hafi skyldu til að leiðbeina barni sínu og vera því til stuðnings til að það geti blómstrað og notið tækifæra sinna í lífinu. 

 


Vinátta að sumri

Screenshot 2021-06-02 134345Nú þegar vetri er lokið og sumarið bankar á dyr og glugga breytist gjarnan starfsemi leik- og grunnskóla. Útivera, útinám og útileikir verða meira áberandi í starfi skólanna og hefðbundin verkefni vetrarins eru jafnvel sett á hilluna.

Svo kemur sumarið og sumarfrí með frelsinu og enn meiri leik. Grunnskólabörn eiga langt sumarfrí fyrir höndum og hafa því gjarnan meiri tíma til að leika við félaga sína og vini. Í heimi barnanna þar sem fullorðnir eru ekki á hliðarlínunni getur reynt á getu þeirra til samskipta og lausna. Útilokun og einelti í hópi getur komið upp með þeirri vanlíðan og höfnunartilfinningu sem fylgir því.

Samkvæmt Vináttu – Fri for Mobberi, forvarnaverkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gegn einelti, á einelti rætur sínar að rekja til óttans við útilokun. Einstaklingur reynir að tryggja stöðu sína í hópnum með því að ýta öðrum út á jaðarinn og út fyrir. Birtingarmyndin getur verið fólgin í setningum á borð við; „Þú mátt ekki vera með í leiknum“, „Mér finnst svona sem þú ert með ekki flott“, eða að ekki sé tekið tillit til skoðana og tillagna hjá félaganum. Því er mikilvægt að þeir fullorðnu sé meðvitaðir um samskipti barnanna og aðstoði þau við að vera góðir félagar og vinir.

Mikilvægt er að hjálpa börnunum við að meta styrkleika félaganna og virða að hvert og eitt barn sé einstakt á sinn hátt. Jafnframt er mikilvægt að benda börnum á mikilvægi þess að hlusta á leikjatillögur annarra og komast að niðurstöðu með samtali. Þannig eflast þau og þroskast. Í leik er alltaf hægt að bæta við félaga og hlutverkum sem hver og einn velur sér. Öll börn eiga rétt á að tilheyra og vera metin að verðleikum. Með þá hugsun að leiðarljósi stuðlum við að vellíðan og þátttöku barnanna okkar í sumar.

 Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum


Vinátta ungra barna

Frá unga aldri er vináttÖll börn eiga að fá pláss í hópnuma og vinir mikilvægur þáttur í félagslegum þroska barna og líðan. Í samskiptum við aðra þroska börn með sér félagslega hæfni sem er mikilvæg í samskiptum og velferð þeirra til lengri tíma litið. Með vini hefur barnið einhvern sem það getur treyst á, speglað sjálfan sig og þroskast með.

Vellíðan og að eignast vini er gjarnan það sem foreldrar telja mikilvægast að börn þeirra upplifi í leik- og grunnskóla. Sumir telja jafnvel mikilvægt að barn þeirra eignist sem fyrst ákveðinn besta vin sem gæti orðið vinur til lífstíðar. Það er þó ekki raunhæft að gera ráð fyrir því hjá mjög ungum börnum. Sumir vinir flytja í burtu og svo þroskast börn á misjafnan hátt og áhugamál eru misjöfn og geta breyst. Slíkt getur skapað óöryggi, jafnvel skort á sjálfstrausti nú eða útilokun annarra barna. Þó mikilvægt sé að börn læri að treysta á vini sína og tryggð við þá á í raun enginn einkarétt á vini sínum. Fyrir þroska ungra barna er mikilvægt að eiga marga góða félaga og geta leikið við sem flesta. Þá læra þau á mismunandi einstalinga og kynnast margs konar aðferðum við leik og samskipti.  

Ekki pláss í hópnum

Þegar ákveðin börn eru búin að mynda sterk tengsl og nánast lokaða vinahópa í barnahópnum getur verið erfitt fyrir önnur börn að komast í hópinn. Þau geta þá fundið fyrir útilokun og einsemd. Ekki sé pláss fyrir þau. Börn eiga sjálf að fá að velja sér vini, en þurfa stundum aðstoð og hvatningu, þannig að þau bæði eigi góðan vin eða vini, en geti jafnframt leikið við sem flesta og tekið þátt í leikjum og verkefnum í öðrum vinahópum. Stundum þurfa þau aðstoð við að komast inn í hópa og samfélög barna. Gefðu því gaum hvort eitthvað barn sé útilokað og hjálpaðu því inn í hóp eða hópa. Það er helst gert með því að skipuleggja leiki eða einhvers konar vinnu þar sem allir taka þátt og allir hafa hlutverk. Hægt er að búa til nýja hópa, s.s. þvert á kyn, eða áður þekkt áhugamál.

Fullorðnir sem fyrirmyndir

Kennarar og foreldrar mikilvægu hlutverki við að styðja og styrkja vináttu barna og félagslega vellíðan í samfélagi barnanna. Þeir geta aðstoðað börn við að rækta vináttu sín á milli, treysta vinaböndin, að þau finni að þau eigi eitthvað sameiginlegt til að byggja vináttuna á og átti sig á hvað átt er við með því að vera traustur og tryggur vinur. Til þess þarf að skapa aðsæður fyrir leik, gleði og samveru. Gleði og grín er mikilvægur þáttur til að byggja upp samkennd og vináttu. Að samskipti hinna fullorðnu innbyrðis og við börnin séu jákvæð, uppbyggjandi og með gleði að leiðarljósi skiptir höfuðmáli.

Í Vináttu, forvarnaverkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gegn einelti fyrir leik- og grunnskóla er lögð áhersla á góðan skólabrag, samskipti, vináttu og félagsfærni barna frá 0 – 9 ára. 


Dagur gegn einelti

8. Bangsi copynóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn var í fyrsta sinn haldinn árið 2011 og þá til að vekja athygli á því að einelti er ofbeldi og á aldrei að líðast. Frá árinu 2017 hefur dagurinn verið tileinkaður einelti meðal barna, einelti í skólum. Einelti er brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er kveðið á um vernd allra barna gegn ofbeldi og að ekki skuli mismuna börnum eftir stöðu þeirra. Einelti er mismunun, því þegar barn er lagt í einelti, fær það ekki að tilheyra hópnum, er útilokað og niðurlægt á einhvern hátt.

Þegar ákveðið var að tileinka málefninu sérstakan dag hafði um árabil verið vitundarvakning og verkefni gegn einelti í skólum, en allt kom fyrir ekki. Ekki hafði tekist að útrýma einelti. Verkefnin voru fyrst og fremst viðbragðsáætlanir við skaða sem var skeður, skaða sem jafnvel byrjaði að myndast mörgum árum fyrr og var orðinn fastur í sessi.

Barnaheill líta svo á að einelti þurfi að fyrirbyggja. Frá árinu 2014 hafa samtökin því boðið upp á forvarnaverkefni gegn einelti. Verkefnið nefnist Vinátta, byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og er þróað af Mary Fonden og Red Barnet- Save the Children í Danmörku. Samkvæmt Vináttu er einelti menningarlegt og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Alltaf þarf að vinna með hópinn í heild, byggja upp jákvæð samskipti og skólabrag og efla félagsfæri barna frá unga aldri. Vinátta hefur verið kærkomið verkefni í leik- og grunnskólum landsins og nú eru 60% leikskóla að vinna með Vináttu og eru þar með Vináttuleikskólar og 20% grunnskóla. Í tilefni af Degi gegn einelti árið 2020 gefa Barnaheill út nýtt og endurbætt efni fyrir grunnskóla sem stendur nú öllum grunnskólum landsins til boða. Með vinnu sem flestra skóla með Vináttu mun takast að minnka einelti til muna, því með Vináttu breytast viðhorf til samskipta, börn og fullorðnir verða umburðarlyndari, sýna umhyggju og virðingu, læra að setja sér mörk og skipta sér af órétti sem aðrir eru beittir. Það sýna rannsóknir og reynslan.


Ekki er allt sem sýnist

Bangsi copyReglulega koma fréttir í fjölmiðlum um skelfilegt einelti. Fullorðnir einstaklingar stíga fram og greina frá einelti sem þeir urðu fyrir í grunnskóla, einelti sem hafði veruleg áhrif á líf þeirra. Þessir einstaklingar gengu jafnvel í skóla, þar sem voru viðbragðsáætlanir gegn einelti, en allt kom fyrir ekki.

Kennarar eiga það flestir sameiginlegt að njóta þess að hitta fyrrum nemendur á förnum vegi og taka tal saman. Samskiptin í hópnum ber þá stundum á góma og þá kemur jafnvel í ljós að ákveðnir einstaklingar hafi lent í einelti í skólanum, án þess að starfsfólk yrði þess vart. Hvísl, augngotur og að virða ekki tillögur eða skoðanir annarra eru dæmi um útilokun sem er oftast ósýnileg þeim fullorðnu sem hjá standa. Því þarf að fyrirbyggja einelti og útilokun, en ekki einungis takast á við það þegar skaðinn er skeður, því að ekki er alltaf allt sem sýnist.

Mikilvægt er að frá unga aldri sé lögð áhersla á góðan skólabrag, félagsfærni og jákvæð samskipti þar sem allir fá að tilheyra hópnum. Hinir fullorðnu þurfa jafnframt að skoða sín samskipti innbyrðis og við börnin.

Vinátta er forvarnaverkefni gegn einelti, fyrir börn frá 0-9 ára, og byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og þeirri nálgun að einelti sé samfélagslegt mein en ekki einstaklingsbundið vandamál.

Rannsóknir og frásagnir kennara sem vinna með Vináttu bera þess vitni að Vinátta ber árangur. Félagsfærni barna eykst, þau læra að setja sér mörk og bregðast við órétti sem aðrir eru beittir, þau hafa orð á líðan sinni og tilfinningum, sýna umhyggju og setja sig í spor hvers annars.

Sjá nánar á barnaheill.is

 


Réttur barna til lífs og þroska

Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinaskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.

Í þessari grein verður fjallað um rétt barna til lífs og þroska.

Rétturinn tíl lífs og þroska á að tryggja börnum og ungu fólki slík skilyði að þeim líði vel, að þörfum þeirra sé mætt og þau geti hafið lífið á þann hátt að á fullorðinsárunum geti þau staðið á eigin fótum, haft áhrif á samfélagið og látið gott af sér leiða. 6. grein Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna snýr að fyrrnefndum rétti en í henni segir:

  1. Aðildarríki viðurkenna að sérhvert barn hefur meðfæddan rétt til lífs.
  2. Aðildarríki skulu eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast.

 

Réttur til lífs og þroska

Það er ekki að ástæðulausu að rétturinn til lífs er samtvinnaður við réttinn til þess að þroskast. Réttindin í Barnasáttmálanum byggjast á þörfum barna. Því má segja að börn eigi rétt á því sem þau þurfa til þess að lifa og þroskast og þarfir þeirra þarf að skilgreina út frá heildrænu sjónarhorni. Líffræðilegum þörfum barna þarf vissulega að mæta því án næringar, hvíldar og annara líkamlegra þarfa fá börn ekki tækifæri til þess að þroskast. Því miður er það enn þann dag í dag raun margra barna. En það er ekki nóg að horfa einungis til líffræðilegra þarfa. Það á ekki að þurfa að taka það fram en líf barna sem og fullorðinna má, og á ekki, að skilgreina einungis út frá líffræðilegu sjónarhorni. Þarfir barna eru ekki síður félagslegar, andlegar og menningarlegar. Þau réttindi barna sem eru tilgreind í Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eiga að leiðbeina valdhöfum hvernig þau tryggja öllum börnum tækifæri til þess að lifa og þroskast. Samband réttinda og þarfa er mjög náið og í stuttu máli má segja að börn eigi rétt á því að þörfum þeirra sé mætt og það er alltaf á ábyrgð fullorðna fólksins að vita hverjar þarfir (allra) barna eru – og mæta þeim. Börn eru alltaf viðkvæmasti hópur samfélagsins og í senn fjölbreyttasti hópur samfélagsins og því þarfir þeirra töluvert fjölbreyttar.

 

Réttindi barna skilin og uppfyllt

Barnasáttmálinn er viðurkenndur af öllum ríkjum Sameinuðu Þjóðanna að Bandaríkjunum utanskildum. Sem slíkur nær hann ekki fullkomlega yfir aðstæður allra barna. Auk þess er gott að líta til þeirra greina sem snúa sérstaklega að börnum í jaðarstöðu. Mannréttindi eru fyrir alla, alltaf. En mannréttindi eru sérstaklega mikilvæg fyrir þá jaðarhópa sem lifa við stöðuga hættu á mismunun og önnur réttindabrot. Til þess að heimfæra hann á aðstæður íslenskra barna er mikilvægt að hafa í huga 3. grein sáttmálans – að ákvarðanir stjórnvalda eigi alltaf að vera börnum í hag. Það sem er barninu fyrir bestu er hins vegar fljótandi hugtak, stöðug áskorun með tilliti til þess hversu fjölbreyttar þarfir barna eru. Þess vegna er mikilvægt að skoða Barnasáttmálann sem heild og nýta grundvallarforsendurnar fjórar til þess að skilja betur innihald greinanna. Auk grundvallarforsendanna má skoða almenn ákvæði Barnaréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna fyrir ítarlegar útskýringar og túlkun á einstökum greinum sáttmálans.

 

Grundvallarforsendur Barnasáttmálans

  1. greinin er ein af fjórum grundvallarforsendum Barnasáttmálans. Hinar þrjár eru
  • 2. grein – Jafnræði – Börnum má ekki mismuna.
  • 3. grein – Ákvarðanir stjórnvalda skulu ávallt byggðar á því sem er barninu fyrir bestu.
  • 12. Grein – Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Þó að öll réttindi Barnasáttmálans séu mikilvæg er almennt gengið út frá því að þessar fjórar greinar feli í sér svokallaðar grundvallarreglur, sem tengja saman ólík ákvæði hans. Grundvallarreglurnar fjórar ganga sem rauður þráður í gegnum allan sáttmálann. Þær veita öðrum greinum sáttmálans samhengi, rétt eins og hinar greinar sáttmálans veita grundvallarforsendunum samhengi. Eins og áður kom fram er ófullnægjandi að skilgreina líf fólks einungis út frá líffræðilegum forsendum. Að lifa er að þroskast. Til þess að þroskast þurfa börn að menntast (28. grein) og menntun þeirra þarf að stuðla að heildrænum þroska þeirra, á þeirra eigin forsendum – ekki á forsendum foreldra þeirra, atvinnulífsins eða annarra. Þau þurfa að geta haft áhrif á samfélagið sem þau búa í og raddir þeirra þurfa að skipta máli – og fullorðna fólkið þarf að hlusta (12. grein). Þau þurfa að leika sér og hvílast á milli (31. grein) – af því börn læra og þroskast í gegnum leik. Þau þurfa vernd (m.a. 34. grein) og þau þurfa ekki síst að borin sé ábyrgð á því að þau fái réttindi sín uppfyllt (m.a. 4. og 5. grein).


Réttur barna til vinnuverndar og verndar gegn arðráni

Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinarskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.

Í þessari grein verður fjallað um rétt barna til vinnuverndar.

Í 32. gr. sáttmálans er þessi réttur útlistaður. Þar segir í 1. mgr.:

Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að vera verndað fyrir arðráni og vinnu sem líklegt er að því stafi hætta af eða komið gæti niður á námi þess eða skaðað heilsu þess eða líkamlegan, sálrænan, andlegan, siðferðislegan eða félagslegan þroska.

Á Íslandi er löng hefð fyrir vinnu barna og ungmenna yfir sumarmánuðina og meðfram skóla, ólaunaðri og launaðri.[1] Almennt er það litið jákvæðum augum ef ungmenni fá reynslu af vinnu við hæfi og af vinnumarkaðnum, til að undirbúa þau fyrir fullorðinsárin. Í almennum athugasemdum nr. 20 sem Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 2016 er fjallað um það jafnvægi sem þarf að vera til staðar á milli réttar barna að fá að taka þátt í samfélaginu, m.a. með vinnu, og annarra réttinda þeirra, svo sem til menntunar, hvíldar og tómstunda. Það er almennt viðurkennt að vinna barna á unglingsárum geti verið gagnleg og jákvæð sem hluti af vaxandi rétti þeirra til þroska og þátttöku og verið drjúgur þáttur í lífsleikniþjálfun. Hins vegar er mikilvægt að börn séu ekki nýtt sem ódýrt vinnuafl og að þeim séu tryggð önnur réttindi sem þau njóta samkvæmt Barnasáttmálanum og öðrum lögum. Börn eiga rétt á að njóta virðingar og ber að tryggja þeim öryggi, hvíld og góðar vinnuaðstæður.

Þess þarf að gæta, eins og segir í 32. grein, að vinna barna komi ekki niður á námi þeirra. Um það hefur verið rætt að á Íslandi hafi álag á börn aukist töluvert á undanförnum árum, sérstaklega með tilkomu styttingar framhaldsskólans. Því ber að hafa sérstakar gætur á því að börn njóti réttar síns til að stunda nám, til að hvílast vel og fá góðan svefn svo þau fái sinnt þeim verkefnum sem tengjast námi þeirra.[2]

Barnaréttarnefndin hefur gagnrýnt íslenska ríkið fyrir það hversu ung börn hefja vinnu, oft 13–14 ára og hversu lágur lágmarksvinnualdur sé, eða 15 ára að meginreglu. Ennfremur hefur nefndin haft áhyggjur af löngum vinnutíma barna og tíðum slysum og áreitni, og að oft sé lögð á börn meiri ábyrgð en hæfir aldri þeirra. Barnaréttarnefndin hefur hvatt íslenska ríkið til að a) hækka lágmarksvinnualdur til samræmis við lok skólaskyldu, b) til að hafa eftirlit með vinnu barna og gera ráðstafanir til þess að eftirlitsaðilar verði þess varir ef börn vinna of ung og hvetja þau til að ljúka framhaldsskóla og c) til að gera ráðstafanir til að tryggja börnum góð og viðeigandi vinnuskilyrði, öryggi, hæfilega langan vinnutíma og hæfilega ábyrgð eftir aldri.[3]

Brotthvarf úr framhaldsskólum hefur verið  til skoðunar á undanförnum árum og er ljóst að Ísland hefur hæsta hlutfall þeirra sem hverfa frá námi úr framhaldsskóla án útskriftar, miðað við hin Norðurlöndin, eða 19,8%.[4] Þær skýringar sem nefndar hafa verið eru m.a. þær að börn og ungmenni þurfi að stunda vinnu til að fjármagna nám sitt, félagslíf og aðra þætti. Of mikil vinna og aukið fjárhagslegt frelsi sem fylgir, ásamt öðrum þáttum, getur haft þau áhrif að börn flosni upp úr námi.[5] Þess þarf því að gæta að börn séu hvött til að halda áfram námi og að finna jafnvægi á milli vinnu og náms. Jafnframt þarf að tryggja þá framfærslu sem þau þarfnast til að geta sinnt námi sínu á árangursríkan hátt.

Fjallað er um  vinnu barna og ungmenna í 10. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 þar sem settar eru fram ákveðnar takmarkanir á vinnutíma barna og unglinga. Reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 útfærir nánar ákveðnar takmarkanir á vinnu barna og ungmenna þar sem m.a. er lagt fram bann við ráðningu ungmenna til vinnu þar sem líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin. Mikilvægt er að börn, ungmenni og atvinnurekendur séu meðvituð um þær takmarkanir sem gilda á vinnutíma og vinnu barna og ungmenna. Þá ber að nefna að Vinnueftirlitið fer með eftirlit með vinnu barna og ungmenna og tekur á móti ábendingum um brot gegn lögunum eða reglunum.

Lögum hefur þó ekki verið breytt eftir tilmælum Barnaréttarnefndarinnar. Mikilvægt er að huga vel að því að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um og taka fullt tillit til góðra ábendinga frá Barnaréttarnefndinni. Jafnframt er mikilvægt að samfélagið taki sig saman um að börn hafi aðgang að góðri frístundaþjónustu fram eftir unglingsaldri til að minnka áherslu á vinnu barna frá 13 ára aldri. 

Barnasáttmálann þarf alltaf að lesa sem eina heild og hafa grundvallarreglur hans um bann við mismunun, um að allar ákvarðanir skuli taka með það sem barni er fyrir bestu, um rétt barna til besta mögulega lífs og þroska og rétt barna til þátttöku í huga þegar um málefni barna er fjallað.

Verum opin fyrir samtali um vinnuvernd barna. Þarf að breyta vinnumenningu barna á Íslandi? Hve mikið vinnuálag er hæfilegt? Hvernig finnum við jafnvægið? Hvað segja foreldrar um það? Hvað segja börnin sjálf um það?

 

 

[1] „Vinnuskóli fyrir ungmenni. Könnun meðal sveitarfélaga“. Útg. Umboðsmaður barna, 2019.

[2] „Ungt fólk undir of miklu álagi“. Viðtal við Bóas Valdórsson skólasálfræðing MH á Mbl.is, 24. sept. 2018.

[3] Lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar til Íslands, frá 6. október 2011. Sjá hér í íslenskri þýðingu að hluta.

[4] „State of the Nordic region 2018“. Skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar.

[5] Sama heimild.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Réttur barna til hvíldar, tómstunda og menningar, 31. gr. Barnasáttmálans

 

Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinarskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.

Grein þessi fjallar um 31. gr. Barnasáttmálans sem snýr að rétti barna til hvíldar, tómstunda og menningar.

Eins og alltaf þegar einstök ákvæði Barnasáttmálans eru túlkuð ber að hafa grunnreglur Barnasáttmálans í huga, en það eru 2., 3., 6. og 12. gr. 

Í heild sinni er 31. gr. Barnasáttmálans svohljóðandi:

  1. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.  2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

Verður nú nánar vikið að efnislegu inntaki greinarinnar.

 

Almenn athugasemd númer 17

Almennar athugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðannar skipta miklu máli fyrir túlkun á Barnasáttmálanum og þróun hans. Þær geta snúið að ákveðinni grein Barnasáttmálans eða verið almennar hugleiðingar nefndarinnar um tiltekin réttindi barna.

Barnaréttarnefndin hefur gefið út almenna athugasemd númer 17 sem útfærir nánar hvað felst í 31. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. 

Þar tekur barnaréttarnefndin sérstaklega fram að leikur og afþreying séu mikilvæg fyrir heilsu og velferð barna ásamt því að ýta undir þroska til sköpunar, ímyndunarafls, sjálfstæðis, sterkari sjálfsmyndar sem og andlega, félagslega, tilfinningalega og hugræna hæfileika og styrk. Leikur og afþreying getur átt sér stað bæði þegar börn eru með jafnöldrum, eru ein eða með stuðningi fullorðins. Þegar fullorðnir og börn eru að leik þarf einnig að hafa í huga að sá fullorðni þarf að sýna aðgát þannig að hann yfirtaki ekki framlag barnsins til að skipuleggja og framkvæma sínar eigin athafnir. Þá er mikilvægt að fullorðnir taki líka þátt í leikjum en þátttakan veitir þeim fullorðna innsýn og frekari skilning á sjónarhorni barnsins ásamt því að byggja upp virðingu milli kynslóða. 

Börn leika sér á ýmsan hátt, svo sem endurgera, breyta og skapa menningu í gegnum eigin hugmyndaríka leik, til dæmis með söng, dansi, sögum, teikningum, leiklist o.s.frv. Þá áréttar barnaréttarnefndin að hvíld og tómstundir séu jafn mikilvæg fyrir þroska barns sem og hinar hefðbundnu þarfir líkt og umönnun, húsaskjól, aðgangur að heilbrigðisþjónustu og menntun. 

 

 

Nánari greining á  1. mgr. 31. gr. 

Réttur barns til hvíldar felur í sér að börn fái næga hvíld frá vinnu, menntun eða áreynslu af öðrum toga. Þá eiga þau líka að fá fullnægjandi svefn. 

Með tómstundum er átt við þann tíma sem leikur og afþreying getur átt sér stað. Það er að segja frjáls og óskilgreindur tími sem inniheldur ekki menntun, vinnu, skyldur heimavið o.s.frv., nánar tiltekið langur valfrjáls tími sem barnið má nota eftir eigin hentisemi. 

Réttur barna til að stunda leiki felur í sér þá hegðun, athöfn eða ferli sem er hafið, stjórnað og uppbyggt af barninu eða börnunum sjálfum. Leikurinn á sér stað hvenær og hvar sem tækifæri gefst. Umönnunaraðilar geta lagt til sköpunar á umhverfinu sem leikurinn á sér stað í. 

Þá er einnig komið inn á rétt barns til að stunda skemmtanir sem hæfa aldri þess en skemmtanir er regnhlífarhugtak til að lýsa mjög víðtæku sviði athafna, þar á meðal þátttöku í tónlist, listum, föndri, samfélagsþátttöku, klúbbum, íþróttum, leikjum, fjallgöngum og útilegum, þ.e. að stunda áhugamál. 31. gr. Barnasáttmálans leggur áherslu á að skemmtanirnar séu viðeigandi fyrir aldur barnsins. Aldur barnsins þarf að vega saman við tímalengd skemmtunar, umhverfið sem athöfnin fer fram í og hversu mikil yfirumsjón fullorðins með barninu þarf að vera á skemmtuninni.

Börn eiga rétt til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum en barnaréttarnefndin styður það viðhorf að börn og samfélag þeirra tjái einkenni sín í gegnum menningarlíf og listir. Aðildarríki að Barnasáttmálanum skuldbinda sig til að virða og koma í veg fyrir hindranir á aðgengi barns, vali þess og nálgun á virkni og þátttöku í menningarlífi og listum. Aðildarríki verða líka að gæta þess að aðrir takmarki ekki þennan rétt. Ákvörðun barns um að nýta eða nýta ekki þennan rétt sinn er val barnsins sem á að virða og vernda.

 

Nánari greining á 2. mgr. 31. gr. 

Réttur barna til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi felur í sér þrjú atriði sem þarf að uppfylla. Í fyrsta lagi er um að ræða aðgang.  Það felur í sér að veita eigi barni tækifæri til að upplifa menningar- og listalíf og læra um víðfeðmt svið þess, mismunandi form og tjáningu. Í öðru lagi þátttöku. Í því felst krafa um að börnum séu tryggð raunveruleg tækifæri, bæði sem einstaklingum og sem hópum, til að tjá sig, eiga í samskiptum, framkvæma og taka þátt í skapandi athöfnum, með hliðsjón af fullum þroska þeirra. Í þriðja lagi er um að ræða framlag til menningarlífs. Börn eiga rétt á að leggja andlegt, efnislegt, vitsmunalegt og tilfinningalegt framlag til menningar og lista, og þannig stuðla að framþróun og umbreytingu samfélagsins sem viðkomandi tilheyrir.

 

Tengsl 31. gr. við aðrar meginreglur Barnasáttmálans

  1. gr. – Bann við mismunun

Börn eiga rétt á að njóta hvíldar, tómstunda og menningarlífs án nokkurar mismununar.

  1. gr. – Það sem er barni fyrir bestu

Öll löggjöf, stefnumótun og fjárframlög í tengslum við þau réttindi sem tryggð eru í 31. gr. eiga að vera miðuð út frá því sem barninu er fyrir bestu. Sem dæmi má nefna löggjöf sem snýr að vinnu barna, skólatíma, skólalöggjöf, framboði á grænum svæðum og almenningsgörðum, aðgengi og hönnun á þéttbýlislandslagi  o.s.frv.

  1. gr. – Réttur til lífs og þroska

Í samhengi við 6. gr. Barnasáttmálans hvetur barnaréttarnefndin til að kannaðar verði allar víddir 31. gr. sem stuðla að þroska og getu barna.

  1. gr. – Réttur barns til að láta í ljós skoðanir sínar

Barnaréttarnefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að veita börnum tækifæri til að leggja sitt af mörkum til þróunar á löggjöf, stefnumótun, aðferðum og hönnun á þjónustu sem á að tryggja framkvæmd á réttinum sem felst í 31. gr. Í því framlagi gæti m.a. falist þátttaka þeirra í stefnumótun sem varðar leiki og afþreyingu, í löggjöf sem hefur áhrif á réttinn til menntunar og skólaskipulagi námsskrá eða verndarlöggjöf sem varðar barnavinnu, löggjöf og reglur sem varða almenningsgarða og aðra aðstöðu í nærumhverfi barna, þéttbýlisskipulag og skipulag og hönnun á barnvænum samfélögum og umhverfi.

 

hjghjg


Næsta síða »

Um bloggið

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Höfundur

Barnaheill - Save the Children á Íslandi
Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2022-05-03 093703
  • Screenshot 2022-05-03 093703
  • CH1605940
  • CH1605940
  • CH1605940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband